Verk mitt rýnir í hugmyndir um tíma, þyngdarafl, þunga og þyngdarleysi í sambandi við landslag og staði sem við ráðum yfir og búum á. Eftir tveggja ára dvöl á Íslandi hefur áhugi minn á ólíkum tímalögum orðið gríðarlega mikilvægur þáttur í listsköpun minni. Tíma má mynda í huga okkar eða setja saman með því hvernig við skynjum t.d. hraunmola. Í þessum framlengda tímaramma breytist hversdagsleg ásýnd hlutanna og verkefni mitt hefur þróast út frá þeirri reynslu. Verk mitt á þessari sýningu birtist helst í ljósmyndaaðferðum í myrkraherberginu – ferli þar sem hið óhlutstæða kemur fram í efni. 

Í nýlegri og yfirstandandi vettvangsvinnu hef ég rannsakað samband milli efnafræðilegra grunnatriða ljósmyndunar og einstakrar jarðefnafræði Íslands með því að gera ljósteikningar á vettvangi úti í íslensku landslagi. Með því að draga fram og sjá fyrir efnahvörf milli ákveðinna efna, eins og ljósnæms pappírs og brennisteinsgufu, steinefna, eða hita úr eldstöð, verða til hvörf milli mismunandi efna í pappírnum og í nátturunni. Efnahvörfin í náttúrunni eru færð yfir á efnafræðilegan flöt ljósmyndapappírsins. Í verkinu er enginn staður myndaður í klassískum skilningi, heldur mótar frekar fyrir honum gegnum ummerki og eftirstöðvar atburða í íslenskri náttúru.  

Verkefnið Hraun samanstendur af myndum sem eiga rætur að rekja til bergfræðilegra skyggna úr hrauni héðan og þaðan á Íslandi. Skyggnurnar voru settar í stækkara í myrkraherbergi eins og jafnan er gert við ljósmyndafilmur. Þær beina ljósi að muninum á lifandi og líflausum formum, milli líffræðilegs og jarðfræðilegs tíma. Verkefnið snýst um íslenskt hraun og hvernig má víkka út skynjun á tíma með því að skoða yfirstandandi ferla þess. Við hugsum venjulega um grjót sem dautt efni en undir smásjá kemur í ljós að það er í stöðugum vexti, iðandi af ósýnilegum efnahvörfum. Myndun hrauns er virkt ferli frá upphafi sem er í stöðugri þróun út líftíma þess.  

 

 

Hraun sýnir það sem ekki má greina með berum augum. Með því að skoða hraun undir smásjá komum við auga á skýra samsetningu með mörgum gasgötum sem koma upp um þau efnahvörf sem mótuðu grjótið. Með tíð og tíma fyllast þessi göt sem gasið skyldi eftir sig og yfirborð grjótsins verður slétt og fellt. Hringlaga form myndanna komu aðallega til vegna þess að þau hentuðu best til að skoða slæðurnar undir smásjánni, en formið vekur einnig upp spurningar um hvernig túlka má myndirnar. Þannig kunna að vakna hugleiðingar um líf grjótsins sem hluta af flóknum uppbyggingar- og þróunarferlum plánetunnar innan sólkerfisins.