Guðríður Skugga Guðlaugsdóttir opnar einkasýninguna States of change / Shifting forms II  í Kubbnum, 2. hæð Listaháskólans að Laugarnesvegi 91, föstudaginn 9. febrúar. Er þetta þriðja opnun meistaranema í myndlist á vormisseri innan sýningarraðarinnar Kveikjuþræðir.

Verkin mín snúast um gjörninga með skúlptúrísku ívafi; sjónrænar rannsóknir sem byggjast á þessum forsendum. Mörg verka minna snúast um leifarnar sem eftir verða, og byggja á hugmyndinni um að vera til staðar án þess að vera til staðar; að hverfa, rotna eða vera fjarverandi (e. absent).

Ég rannska umbreytingu efna, viðbrögð, afkastagetu og leifarnar sem eftir verða af ferlinu sjálfu. Í gegnum efnislega eiginleika verkanna er nærvera athafnarinnar gefin í skyn, þrátt fyrir að athöfnin sjálf sé fjarverandi.

States of change / Shifting forms er vinnu titill fyrir röð verka sem fjalla um umbreytingu efna. Helsta efnið er aska brendra ljósmynda og litaðra blaða.

Ég nefni ekki hvaða myndir það eru sem um ræðir. Þær hafa allar sama gildi og sama vægi. Verkin snúast fyrst og fremst um umbreytinguna. Getur tilvist mögulega öðlast meira vægi þegar einhvers konar umbreyting á sér stað, hvort sem það er eðlisfræðileg eða líffræðileg umbreyting? 

Meistaranemar á fyrra ári í myndlist við Listaháskóla Íslands halda röð einkasýninga. Sýningarnar eru af ólíkum toga en eiga það sammerkt að vera eins konar kveikjuþræðir og nánari útfærslur af hugmyndum og vinnuferli nemenda fram til þessa.

Guðríður Skugga Guðlaugsdóttir útskrifaðist með Diplom gráðu frá Kunsthochschule Berlin Weißensee árið 2010, árið 2011 var hún masters nemandi Prof. Berndt Wilde í Kunsthochschule Berlin Weißensee. Hún stundar nú meistaranám við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.