María Hrönn Gunnarsdóttir opnar einkasýninguna Óson í Kubbnum, 2. hæð Listaháskólans á Laugarnesvegi 91, föstudaginn 9. mars kl. 16:00. Er þetta fimma opnun meistaranema í myndlist á vormisseri innan sýningarraðarinnar Kveikjuþræðir.

Sýningin Óson fjallar um tálma eða inngrip. Ég beiti aðferðum sem minna á dagbókarskrif til að höndla áskoranir, sem dýrmætir dagar og nætur færa mér. Ég tek ljósmyndir og skrifa hugsanir mínar og vangaveltur, með einhverjum af mínum að minnsta kosti 100 pennum, niður í dagbækurnar mínar, sem eru alla vega þrjár talsins ef ekki fleiri. Ein þeirra er gul af ástæðum sem ég skil ekki og þarf ekki að vita.

Lak hefur tekist á loft, það ber í sér sögur um líf og dauða, gleði og sorgir, börn og koddahjal. Dagbókarfærslur hanga á norðurvegg og draga upp myndir af atburðum sem dvelja nú handan ósonlagins. Útlínuteikningum hefur verið komið fyrir í samanbrotnum, beinhvítum pappírsöskjum.

Meistaranemar á fyrra ári í myndlist við Listaháskóla Íslands halda röð samsýninga á vorönn 2017. Sýningarnar eru af ólíkum toga en eiga það sammerkt að vera eins konar kveikjuþræðir og nánari útfærslur af hugmyndum og vinnuferli nemenda fram til þessa.

María Hrönn Gunnarsdóttir lauk BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands (LHÍ) vorið 2005 og diplómagráðu í mótun/keramik vorið 2016 frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Áður hafði hún lokið meistaranámi í lyfjaræði frá Háskóla Íslands og diplómanámi í hagnýtri fjölmiðlun frá sama skóla. Hún stundar nú nám á meistarastigi við myndlistardeild LHÍ.

Facebook viðburður