Ragnheiður Guðmundsdóttir opnar einkasýninguna Samruni lífrænnar keðju í MA vinnurými inn af Huldulandi, 1. hæð Listaháskólans á Laugarnesvegi 91, föstudaginn 16. mars kl. 16:00. Er þetta sjötta opnun meistaranema í myndlist á vormisseri innan sýningarraðarinnar Kveikjuþræðir.

Líkami mannsins er klæddur húð. Síðan klæðir hann húðina sér til varnar og fegurðarauka fatnaði og býr sér til til hýbýli sem má segja að sé brynjuð húð frá veröldinni fyrir utan.  Þau klæði sem ég ber á borð á sýningunni “Samruni lífrænnar keðju” eru lituð með fæðu sem ég nærist á í mínu daglega lífi. Þar verður samruni, efnin sem ég næri mig á sameinast líkamanum og verða þannig að minni eigin húð. Húðin er stærsta líffæri okkar og skynjar veröldina á flókinn og undraverðan hátt. Þetta hef ég haft að leiðarljósi í myndlist minni þar sem áhugsvið mitt liggur í því að skoða hvernig tilveran er samofin þar sem hlutir og fyrirbæri hafa áhrif hvert á annað. Ég velti fyrir mér hringrás náttúrunnar; eyðileggingu og sköpun og þeirri eilífu umbreytingu sem á sér stað. Áhorfandinn gengur inní heim samruna efna sem umlykja hann í rýminu.

Meistaranemar á fyrra ári í myndlist við Listaháskóla Íslands halda röð samsýninga á vorönn 2017. Sýningarnar eru af ólíkum toga en eiga það sammerkt að vera eins konar kveikjuþræðir og nánari útfærslur af hugmyndum og vinnuferli nemenda fram til þessa.

Ragnheiður útskrifaðist með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2000 og á að baki 3ja ára nám í heildrænum lækningum. Maður, náttúra og skynjun á tilverunni hefur verið hennar áhugasvið í gegnum tíðina og hvernig allt í hinni lífrænu keðju er samofið. Ragnheiður hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hérlendis og erlendis.

Facebook viðburður