Föstudagsfyrirlestrarröð tónlistardeildar:

Gunnar Karel og Þórunn Gréta Sigurðardóttir munu segja frá tónlistarhátíðinni Myrkum músíkdögum sem næst verða haldnir dagana 25.-27. janúar 2018 í Reykjavík. Myrkir músíkdagar er ein af elstu starfandi tónlistarhátíðum landsins og hefur frá stofnun hennar árið 1980 gegnt mikilvægu hlutverki sem vettvangur framsækinnar samtímatónlistar á Íslandi.

Hátíðin leggur áherslu metnaðarfulla tónleikadagskrá þar sem frumsköpun og tilraunastarfsemi eru í fyrirrúmi en stór hluti tónverkanna á efnisskránni eru frumflutt. Frá upphafi hefur íslensk tónlist verið í forgrunni á dagskrá hátíðarinnar ásamt völdum nýjum tónverkum erlendis frá. Meðal fjölbreyttra viðburða hátíðarinnar má finna allt frá einleikstónleikum til innsetninga. 

Nokkrir af staðfestum listamönnum Myrkra Músíkdaga 2018:

Caput Ensemble - Kammersveit Reykjavíkur – Nordic Affect – Sinfóníuhljómsveit Íslands - Hlín Pétursdóttir Behrens og Una Sveinbjarnardóttir - Passepartout Duo - Riot Ensemble - Quartetto a muoversi - Throndheim Sinfonietta – Töfrahurð – Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Gunnar Karel fæddist 1984 í Reykjavík. Snemma hóf hann tónlistarnám og hefur hann spilað á mörg mismunandi hljóðfæri. Sem tónskáld hefur Gunnar einbeitt sér fyrst og fremst að kammertónlist, þar sem honum finnst tónlistin fá þar þá athygli sem að hún þarfnast. Fyrir utan tónsmíðarnar þá hefur Gunnar einnig haslað sér völl sem tónleikahaldari. Sérstaklega má nefna Sonic hátíðina í Kaupmannahöfn, sem hann setti á laggirnar ásamt Filip C. de Melo árið 2012. Í júní 2016 var hann ráðinn sem listrænn stjórnandi Myrkra Músíkdaga. Einnig er hann einn af listrænum stjórnendum Jaðarber í Reykjavík. Gunnar er meðlimur í DKF, leikhópnum 16 elskendur og S.L.Á.T.U.R. Hann hlaut starfslaun listamanna fyrir hluta af árinu 2015.

Þórunn Gréta Sigurðardóttir hlaut grunnmenntun í píanóleik við tónlistarskólana í Fellahreppi og á Egilsstöðum og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Hún stundaði píanó- og tónsmíðanám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk burtfararprófi í tónsmíðum árið 2008, B.A. gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands árið 2011 og M.Mus. gráðu frá Hochschule für Musik und Theater í Hamborg árið 2014. Hún hefur sótt fjölda masterklassa og námskeiða í píanóleik, tónsmíðum og spuna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi auk Íslands. Á undanförnum árum hefur hún rannsakað ýmis svið samtíma tónleikhúss og samband tónlistar við texta og málhljóð. Verk hennar hafa verið flutt á ýmsum tónlistarhátíðum á Norðurlöndunum og í Þýskalandi. Þórunn Gréta var meðal listrænna stjórnenda Jaðarbers 2013-2015 og listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga 2016. Hún hefur í tvígang hlotið starfslaun listamanna. Hún hefur starfa sem formaður Tónskáldafélags Íslands frá 13. júní 2016.