Lokatónleikar Guðnýjar Ósk frá Listaháskóla Íslands í Skapandi tónlistarmiðlun föstudagskvöldið 11. maí klukkan 20. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir. 

Söngur, dans og spuni verða í fyrirrúmi og verður talað um tengingu milli þessara listforma en í náminu hefur Guðný lagt áherslu á klassískan söng. Sungin verða lög úr mismunandi söngleikjum og einnig verður litið við í óperu- og  kvikmyndaheiminn.

Guðný talar einnig um samfélagið sem við lifum í og hvernig ungt fólk í dag getur elt drauma sína með því að setja sér markmið. Guðný hélt vinnusmiðju fyrir 14 ungar stúlkur sem hún kennir í Söngleikjadeild Dansskóla Birnu Björns. Þar lærðu þær meðal annars sjálfsstyrkingu og markmiðasetningu. Þær dönsuðu spuna við mismunandi tónlist og ræddu upplifanir þess.
Að lokum lærðu þær söngleikjaatriði sem þær ætla að setja á svið í Salnum og heilla áhorfendur!  

Meðleikari : Matthildur Anna Gísladóttir
Fiðla : Agnes Eyja Gunnarsdóttir
Víóla : Katrín Arndísardóttir
Nemendur Dansskóla Birnu Björns

Guðný hóf tónlistarnám 8 ára gömul á píanó og 11 ára hóf hún söngnám við Tónlistarskólann í Eyjafirði. Guðný hóf nám í Listaháskóla Íslands í Skapandi tónlistarmiðlun haustið 2015. Með náminu hefur hún starfað sem danskennari og kennt við söngleikjadeild Dansskóla Birnu Björns.

Ljósmynd af Guðnýju Ósk: Leifur Wilberg