Hlemmur Mathöll verður Hlemmur Geithöll, miðvikudaginn 6. desember á milli klukkan 16 og 18. Útskriftarnemar í meistaranámi í hönnun við Listaháskóla Íslands standa þar fyrir viðburði tileinkuðum íslensku geitinni sem er afrakstur verkefnis sem unnið var í samstarfi við fjölmarga aðila. Íslenska geitin hefur verið kölluð kýr fátæka mannsins vegna þess hve létt hún er á fóðrum og plássnett. Geitamjólk þykir afar holl, kjötið er fitusnautt og próteinríkt en hafa má ýmsar nytjar af íslensku geitinni.

 

Íslenski geitastofninn hefur verið í útrýmingarhættu og eru dýrin einungis um 1200 en stofninn er einstakur sem á engan sinn líka.

 

Verðmæti hans er bæði menningarlegt og erfðafræðilegt en ullarlag geitarinnar er sérstakt. Íslenska geitin hefur fylgt þjóðinni frá landnámi, hún var við líði meðan landsmenn bjuggu í torfkofum og fram til dagsins í dag.

 Þennan dag verður hægt að heilsa upp á tvær geitur við Hlemm, inni við verður hægt að skoða afrakstur verkefnisins, sem er meðal annars bók sem í verða upplýsingar og sögur um íslensku geitina. Margnota taupokar verða til sölu, hægt verður að smakka þurrkaðar geitakryddpylsur og þurrkað geitakjöt. Á matseðli veitingastaðanna Kröst, Skál og La Poblana verða réttir úr geitakjöti og ætla má að allir finni eitthvað við sitt hæfi.