Píanóleikarinn Mathias Halvorsen fjallar um eigin tónlistarsköpun í hádegisfyrirlestri við tónlistardeild LHÍ, föstudaginn 20. apríl klukkan 12:45 til 13:45. Þar mun hann beina sjónum að tveimur verkefnum sem hann vinnur að um þessar mundir en í báðum þeirra er unnið með hljómborðstónlist Jóhanns Sebastíans Bachs á nýstárlegan og áhugaverðan hátt.

Í Vel tempraða hljómborðinu hefur Halvorsen starfað með listamönnum úr ýmsum áttum í því skyni að búa til nýja hljóðheima flygilsins en þar koma meðal annars bambusprik, borðtenniskúlur og margt fleira við sögu. Halvorsen mun að endingu spila Vel tempraða hljómborð Bachs á umbreytt hljómborð sem þróast hafa í þessu ferli en á meðal samstarfsmanna hans  eru Peaches, Laurent ChetouaneBlack Cracker og fleiri. Verkefnið mun hljóma í fyrsta sinn opinberlega á tónlistarhátíðinni Podium í Esslingen nú í maí næstkomandi og umbreytt hljómborð sem hafa þróast í tengslum við það munu einnig koma við sögu á fyrstu sólóplötu Halvorsen sem kemur út í september næstkomandi á vegum útgáfufyrirtækisins Backlash Music.

Goldberg-tilbrigðin, sem einnig verða flutt á tónlistarhátíðinni Podium í Esslingen,  er samstarfsverkefni Halvorsen og trommuleikarans Jan Martin Gismervik þar sem tónlistarmennirnir tveir vinna með og endurvinna tilbrigðabálk J. S. Bachs.  Halvorsen hefur áður unnið með Goldberg-tilbrigðin á áhugaverðan hátt eins og lesa má um á heimasíðu hans.  

Mathias mun fjalla um þessi tvö tónlistarverkefni í hádegisfyrirlestri á föstudaginn. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis. 

Um Mathias Halvorsen:

Mathias Halvorsen býr í Reykjavík ásamt íslenskri kærustu og ungum syni þeirra. Hann er iðinn við tónleikahald af alls kyns toga og hefur starfað með listafólki svo sem danshöfundinum Laurent Chétouane og tónlistarkonunni Peaches en með þeirri síðarnefndu hefur hann flutt Peaches Christ Superstar á fjölmörgum listahátíðum, þar á meðal hér í Reykjvík. Mathias er einn af stofnendum og listrænum stjórnendum listahátíðarinnar Podium í Haugesund og stofnmeðlimur hins rómaða tríós LightsOut sem flytur fjölbreytt og áhugaverð tónlistarverkefni í þreifandi myrkri. Árið 2017 var fyrsta ópera Mathias Halvorsen, Dracula, frumflutt af Kammeróperunni í Haugesund sem pantaði verkið.  

Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu tónlistarmannsins.