Sunnudaginn 29. apríl klukkan 17 fara fram tónleikar í Norðurljósum Hörpu klukkan 17. Fram kemur sönghópurinn Voces Thules ásamt nemendum sem sótt hafa miðaldatónlistarnámskeið sem Voces Thules hefur haft umsjón með við tónlistardeild LHÍ. Að auki koma fram félagar úr Camerata-hópi Listaháskólans.

Efnisskráin er víðfeðm og spannar lög úr íslenskum og breskum miðaldahandritum, m.a. fjölradda söng úr tíðum heilags Magnúsar Orkneyjajarls og vorsönginn Sumer is icumen in ásamt tveimur íslenskum miðaldatvísöngvum með latneskum messutextum. Þá verða flutt fjölradda sálmalög frá 16. öld sem varðveittust í íslenskum handritum með íslenskum textum. Einnig verða flutt verk frá gullöld fjölröddunarinnar, m.a. þættir úr Missa papae Marcelli eftir Palestrina ásamt veraldlegum madrigölum. Einn af þeim barst til Íslands og umbreyttist í þjóðlagið Vera mátt góður.

Tónleikarnir eru tileinkaðir minningu Halldórs Vilhelmssonar óperusöngvara og húsasmiðs og eins af stofnfélögum Íslensku óperunnar. Hann hefði orðið áttræður 24. apríl 2018 hefði hann lifað. Halldór átti töluverðan þátt í að sönghópurinn Voces Thules var stofnaður og átti m.a. hugmyndina að stærsta verkefni hópsins, heildarflutningi og útgáfu á Þorlákstíðum. Halldór tók þátt í nokkrum verkefnum sem urðu undanfari að stofnun hópsins þar sem viðfangsefnin voru fjölradda verk frá 16. öld.

Þetta er í níunda skipti sem Listaháskólinn stendur fyrir miðaldatónlistarnámskeiði í samstarfi við Voces Thules sönghópinn þar sem nemendur fá reynslu í að vinna með atvinnutónlistarhóp og taka þátt í opinberum tónleikum. Námskeiðið er ætlað nemendum á meistarastigi, einkum nemendum í NAIP (New Audiences and Innovative Practice) meistaranámi, en einnig taka þátt meistaranemar í tónsmíðum, hljóðfæra- og söngkennslu og almennri listkennslu. Camerata hópur Listaháskólans sem leggur stund á flutning endurreisnar- og barokktónlistar er skipaður nemendum í söng og hljóðfæraleik.

Nánari upplýsingar má finna hér