ALANNA HEISS: The Anti-Museum

Mánudaginn 23. október klukkan 12:00 mun bandaríski sýningastjórinn Alanna Heiss halda opinn fyrirlestur um víðtækan feril sinn í yfir 45 ár sem sýningastjóri, menningarframleiðandi og frumkvöðull á sviði samtímamyndlistar, í fyrirlestrarsal myndlistardeildar að Laugarnesvegi 91.

Alanna Heiss (f. 1943) er mikilvirk og virt persóna í bandarískum listheimi. Hún er helsti leiðtogi hreyfingar í stofnun óhefðbundinna listrýma í New York, frá því snemma á áttunda áratugnum, sem breytti því á róttækan hátt hvernig staðið var í framhaldinu að stórum listverkefnum, miðlun þeirra viðtökum við þeim.

Árið 1972 stofnaði hún sýningarýmið Clocktower Productions, sem hún starfrækti á Manhattan til ársins 2013. Og árið 1976 stofnaði hún P.S.1 Contemporary Art Center (sem nú er hluti af MoMA PS1), sem hún stýrði í 32 ár í Queens, og þekkt er um heim allan sem einn helsti sýninga- og framleiðsluvettvangur samtímalistar í heiminum.

Alanna Heiss hefur stýrt yfir 700 sýningum í P.S.1 og í listasöfnum og sýningarýmum um allan heim. Árið 2003 stofnaði hún Art RadioWPS1.org, útvarpsstöð P.S.1, þá fyrstu sinnar tegundar. Meðal fjölmargra rita, sem hún hefur skrifað og stýrt, eru bækur um verk listamanna s.s. Janet Cardiff, Alex Katz, Dennis Oppenheim, Michelangelo Pistoletto, Katharina Sieverding og John Wesley.

Alanna Heiss stýrði Parísartvíæringnum í samtímamyndlist árið 1985 og bandaríska skálanum á Feneyjatvíæringnum árið 1986. Hún var jafnframt sýningarstjóri sérstaks sýningarverkefnis um John Cage á Feneyjatvíæringnum árið 1993. Hún var listrænn stjórnandi Shanghai-tvíæringsins í samtímamyndlist árið 2002 og hún var þátttakandi í Yokohama-þríæringnum í samtímamyndlist árið 2005.

Alanna Heiss hefur hlotið helstu viðurkenningu New York borgar, svo og viðurkenningar frá franska ríkinu, Polar verðlaunin frá sænska konungdæminu og Skowhegan verðlaunin, öll fyrir framlag sitt til menningarmála, svo og CCS Bard verðlaunin fyrir framúrskarandi starf sem sýningarstjóri.

Alanna Heiss er stödd á Íslandi í fyrsta sinn, í boði Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og Listasafns Íslands.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Ath. Sunnudaginn 22. október kl.14 mun Alanna Heiss eiga í samtali við Hrafnhildi Arnardóttur/Shoplifter um sýningu hennar Taugafold VII, á lokadegi sýningarinnar í Listasafni Íslands.

 

Facebook viðburður hér