Í útskriftarverkefninu mun Jóhanna samtvinna helstu áhugasvið innan tónlistarinnar; kórsöng, tónsmíðar og útsetningar. Umfjöllunarefni verkefnisins er kórtónlist og kórahefð þar sem Jóhanna mun gefa innsýn inn í upplifanir kórsöngvara af kórastarfi og kórtónlist á Íslandi.
Flutt verða þrjú kórlög eftir hana, þar af ein útsetning á sönglagi Emils Thoroddsen, Komdu, komdu kiðlingur.

Verkin verða flutt af sönghópnum Hljómeyki. Stjórnandi er Marta Guðrún Halldórsdóttir.

Jóhanna Guðrún Sigurðardóttir hóf tónlistarnám níu ára gömul við Tónlistarskóla Seltjarnarness þar sem hún lærði píanóleik hjá Aðalheiði Eggertsdóttur. Frá aldrinum tólf til fjórtán ára bjó hún í Kaupmannahöfn þar sem hún lærði á gítar og gekk í Rudolf Steiner skóla en þar spilaði tónlist heilmikinn þátt í skólastarfinu. Árið 2007 lauk hún miðprófi á píanó og fór síðan í Tónlistarskóla FÍH þar sem hún lærði jazzpíanóleik í rúmt ár. Árið 2012 byrjaði hún í Háskólakórnum, undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar, og tók samhliða kórnum eina önn í Söngskólanum í Reykjavík. Hún hefur síðan þá sungið í ýmsum kórum og sönghópum.
Jóhanna hóf nám við Listaháskóla Íslands í skapandi tónlistarmiðlun haustið 2014. Áherslur í náminu hafa verið fjölbreyttar en hún hefur lært klassískan og rytmískan píanóleik, söng, tónsmíðar og prófað sig áfram með kórstjórn. Aðalkennarar hennar í Listaháskólanum hafa verið Peter Máté, Kjartan Valdemarsson, Björk Jónsdóttir og Hildigunnur Rúnarsdóttir.