Opin vinnustofa (masterklass) með Nicola Lolli, konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands mánudaginn 16. apríl frá 18 - 20:30, í tónlistardeild Listaháskóla Íslands, Skipholti 31. Nemendur Guðnýjar Guðmundsdóttur við tónlistardeild Listaháskóla Íslands leika ásamt Richard Simm, píanóleikara. Allir velkomnir að hlusta og njóta og aðgangur ókeypis.

Efnisskrá:

- Vaughan Williams: Lark Ascending
- W.A.Mozart: Fiðlukonsert í A-dúr; 1. þáttur
- Edvard Grieg: Sónata í F-dúr, 1. þáttur 
- Samuel Barber: Fiðlukonsert, 1.þáttur

Fram koma:
- Inger-Maren Fjeldheim 
- Agnes Gunnarsdóttir
- Aldís Bergsveinsdóttir 
- Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir

Meðleikari : Richard Simm

Nánar um Nicola Lolli:

Nicola Lolli fæddist í Castelfranco Veneto á Ítalíu og hélt sína fyrstu einleikstónleika í Teatro Chiabrera í Savona, aðeins ellefu ára gamall. Hann stundaði framhaldsnám í fiðluleik við þrjá tónlistarháskóla: í Vínarborg hjá Eszter Haffner, í Lübeck hjá Shmuel Ashkenasi og í Graz hjá Gerhard Schulz. Að námi loknu lék hann um tíma í Fílharmóníuhljómsveit Vínarborgar og í hljómsveit Vínaróperunnar. Lolli hefur unnið til verðlauna í ýmsum keppnum, m.a. í tvígang í ítölsku fiðlukeppninni í Vittorio Veneto árin 1993 og 1997. 

Hann hefur komið fram sem einleikari með Þjóðarhljómsveitinni í Taiwan, Salieri-hljómsveitinni og Háskólahljómsveitinni í Písa svo einhverjar séu nefndar. Að auki hefur hann gegnt starfi konsertmeistara Santa Cecilia-hljómsveitarinnar í Róm og stöðu aðstoðarkonsertmeistara Salieri-hljómsveitarinnar í sömu borg.

Árið 2012 var Nicola ráðinn konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gegnir hann þeirri stöðu nú, ásamt Sigrúnu Eðvaldsdóttur. Einnig er hann konsertmeistari hljómsveitar Íslensku óperunnar. Nicola lék í fyrsta sinn einleikskonsert með Sinfóníuhljómsveit Íslands í mars árið 2018 þegar hann flutti fyrri fiðlukonsert Prokofíevs, en árið 2014 lék hann tvíkonsert Bachs á aðventutónleikum hljómsveitarinnar ásamt Sigrúnu Eðvaldsdóttur.

Nicola Lolli er virkur þátttakandi í ýmsum kammerhópum, á Ítalíu leikur hann með Bernstein-píanótríóinu og Ensemble Punto It. Á Íslandi hefur Nicola leikið á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins og í desember síðastliðnum lék hann á tónleikum í Föstudagsröð SÍ ásamt Víkingi Heiðari Ólafssyni og Sigurgeiri Agnarssyni. 

Tónleikar Nicola Lolli og Domenico Codispoti á Listahátíð í Reykjavík árið 2015 voru tilnefndir til Íslensku tónlistarverðlaunanna ári síðar, en á efnisskrá var meðal annars frumflutningur á verki Þuríðar Jónsdóttur, Solid Hologram.