Föstudaginn 20. maí, fór fram málþingið Lesið í samhengið í húsnæði hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskólans. Málþingið var á vegum Arkitektafélags Íslands og Listaháskólans. Á málþinginu var fjallað um samhengi arkitektúrs og borgarrýma með áherslu á miðborg Reykjavíkur.

„Alls kyns breytingar í miðbænum hafa verið ofarlega á baugi og mikið í umræðunni undanfarið,“

segir Steinþór Kári Kárason, arkitekt og prófessor við hönnunar- og arkitektúrdeild en hann hélt erindi á málþinginu ásamt Bjarka Gunnari Halldórssyni arkitekt. Að erindunum loknum fóru síðan fram pallborðsumræður með Kötlu Maríudóttur og Hildi Gunnarsdóttur arkitektum auk fyrirlesurum, undir stjórn Sigrúnar Birgisdóttur deildarforseta. „Mikið var um spurningar og athugasemdir en markmiðið með málþinginu var að búa til vettvang þar sem vönduð umræða gæti átt sér stað um þessi mál. Það tókst mætavel og það virtist almenn ánægja með þetta framtak og við stefnum að því að gera meira af þessu.“

Sjónum var beint að miðbænum og gæðum nærumhverfis með vísun í umfjöllun undanfarins misseris. Rýnt var í ferli og verkfæri við mótun byggðar. Fjallað var á gagnrýninn hátt um skörun arkitektúrs, borgarrýma og skipulags og hvernig ákvarðanir um framkvæmdir geti tekið mið af slíkri skörun.

Heimasíða AÍ