Útskriftarverk Atla K. Petersen og Björns Pálma Pálmasonar úr meistaranámi í tónsmíðum verða flutt af Caput, undir stjórn Guðna Franzsonar, í Sölvhóli, föstudaginn 19. Maí kl. 20.

Atli K. Petersen lauk prófi frá Blásarakennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1988, þar sem kennarar hans voru m.a. Kjartan Óskarsson og Oddur Björnsson. Atli hefur stundað kennslu og unnið að tónsmíðum og útsetningum í Færeyjum síðan hann lauk námi.

Leiðbeinendur Atla í tónsmíðum undanfarin tvö ár hafa verið Úlfar I. Haraldsson og Áskell Másson.

„Flugferð 2017 er ferðalag gegnum skýin, frá jörðu upp í 11 kílómetra hæð, sem ég hef upplifað í ótal skipti í flugferðum frá Færeyjum til Íslands. Þetta hefur verið ferðalag tónskálds, það byrjaði með Flugferð 2015, síðan Flugferð 2016, bæði verkin flutt af hinum frábæra Caput hópi. Nú lýkur ævintýrinu með Flugferð 2017. Eins og í flugi, þá eru lygnir kaflar en það er líka ókyrrð. Þegar maður stígur upp í flugvél reiknar maður með að komast heill á húfi á leiðarenda, vonandi fróðari og reynslunni ríkari á einn eða annan hátt.“

Björn Pálmi Pálmason lauk framhaldsprófi í píanóleik undir handleiðslu Júlíönu Rúnar Indriðadóttur frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar árið 2011. Hann lauk bakkalárnámi við Listaháskóla Íslands í tónsmíðum ár 2014 þar sem kennarar hans voru Hróðmar I. Sigurbjörnsson og Páll Ragnar Pálsson. Undanfarin tvö ár hefur hann stundað meistaranám í tónsmíðum undir handleiðslu Páls Ragnars Pálssonar.

Eind, er samið fyrir tvo slagverksleikara og kammersveit.

„Með þessu verki reyni ég að vinna með takmarkaðan spuna á meðvitaðan og kerfisbundinn hátt þannig að verkið öðlist samheldni. Í verkinu er einnig hugleiðing um stærðfræðilegt form sem kallast sjálfsvip (e. self-similarity) sem finna má á mörgum stöðum í náttúrunni, eins og til dæmis í formi spergilkáls.“

 

Atli og Björn Pálmi munu kynna verk sín föstudaginn 19. maí í Sölvhóli kl. 9:30-12.