Styktarsjóður Halldórs Hansen var stofnaður 11. desember 2002. Halldór Hansen barnalæknir lét eftir sig mikið tónlistarsafn með m.a. um 10.000 þúsund hljómplötum, sem hann ánafnaði Listaháskóla Íslands í erfðaskrá ásamt öðrum eigum sínum sem skyldu renna í sérstakan sjóð í hans nafni.

Meginmarkmið sjóðsins eru að:

  • Styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn Listaháskóla Íslands.

  • Veita árlega styrk í nafni Halldórs Hansen til eins af tónlistarnemum Listaháskóla Íslands
 sem náð hefur framúrskarandi árangri að mati sjóðsstjórnar.

Verðlaun styrktarsjóðs Halldórs Hansen

Samkvæmt skipulagsskrá Styrktarsjóðs Halldórs Hansen er eitt af meginmarkmiðum hans að veita árlega styrk í nafni Halldórs Hansen, einum eða tveimur efnilegum tónlistarnemum Listaháskóla Íslands, sem náð hafa framúrskaranandi árangri að mati sjóðsstjórnar. Til að takmarka val styrktarsjóðsins var ákveðið að eingöngu þeir tónlistarnemar kæmu til greina sem hefðu nýlokið fyrsta háskólastigi og væru í þann mund að hefja framhaldsnám erlendis.

Fyrstu styrkirnir voru veittir fyrir árið 2004 og hafa þeir verið veittir árlega síðan.

Í myndarununni hér fyrir neðan má sjá myndir af Halldóri Hansen og svo verðlaunahöfum ársins 2016.