Þriðjudaginn 8.maí klukkan 20  fara útskriftartónleikar Hafsteins Þráinssonar fram í Salnum í Kópavogi en hann útskrifast með BA-gráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands í vor. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir. 

Hafsteinn steig sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni árið 2004 þegar hann hóf gítarnám, þá ellefu ára gamall. Árið 2010 tók hann að læra á rafgítar við Tónlistarskóla FÍH  þaðan sem hann útskrifaðist árið 2015 með framhaldspróf. Hafsteinn hefur komið víða við á ferlinum, í jazz, klassík og poppi. Hann hefur komið fram undir listamannanafninu Ceasetone, sem slíkur gaf hann út sína fyrstu plötu 2016 en platan hlaut tilnefningu til Íslensku Tónlistarverðlaunanna sem plata ársins. Hafsteinn hefur einnig starfað með hinum ýmsu tónlistarmönnum og hljómsveitum og ferðast vítt og breitt á tónleikaferðaögum.

Tónlist Hafsteins byggir mikið á sterkum andstæðum og flæðandi fjölbreytileika í hljóði og tónefni. Hann leggur mikla áherslu á andstæður hins rafræna og akústíska og leitar leiða til að blanda þeim heimum saman á skýran og afgerandi hátt.

Á útskriftartónleikum Hafsteins verður flutt eitt langt verk sem byggir sterklega á fyrrnefndum áherslum þar sem allar hugleiðingar fá að líta dagsins ljós.

Flytjendur:

  • Sofie Meyer, fiðla 1
  • Margrét Soffía Einarsdóttir, fiðla 2
  • Karl Pestka, víóla
  • Unnur Jónsdóttir, selló
  • Elvar Bragi Kristjónsson, trompett 1
  • Jakob Van Oosterhout, trompett 2
  • Ingi Garðar Erlendsson, básúna
  • Friðrik Margrétar-Guðmundsson, píanó
  • Pétur Eggertsson, bassahljóðgervill
  • Hafsteinn Þráinsson, rafgítar

Stjórnandi: Úlfar Ingi Haraldsson